Thelma Jónsdóttir er með einstaka ástríðu fyrir gömlum kjólum. Ég hitti hana í sínu kjörumhverfi í Hafnarfirði þar sem hún býr og starfar. „Það er gott að búa í Hafnarfirði, ég get sótt nánast alla þjónustu hér í mínu nærumhverfi. Það eru líka þvílík lífsgæði að geta labbað til vinnu“ segir hún. Thelma kann að njóta og það er auðvelt að heillast með henni þegar talið berst að kjólunum.
„Ég var í handavinnuvali í síðasta bekk í grunnskóla og langaði að sauma kjól og fletti í gegnum öll Burda blöðin en fann ekkert spennandi svo kennarinn leyfði mér að fara inn í bakherbergi þar sem mátti finna fullt af sníðablöðum frá árunum 1960 – 1975. Þetta var fjársjóður fyrir mig. Ég fann þá snið sem mér fannst flott og saumaði upp úr því fallegan kjól. Blaðið var frá 1971 og ég á það enn, því miður á ég þó ekki kjólinn lengur.
Frá unglingsaldri hef ég haft áhuga á því að fara eigin leiðir í fatavali. Ég setti t.d. dúk á hausinn á mér þegar ég fór á árshátíð í grunnskóla. Ég var hvorki hvött né lött til þess í uppeldinu en ég held ég hafi sjaldan fylgt tísku. Frænka mín fjórum árum eldri en ég var mér ákveðin fyrirmynd. Ég sá að það var hægt að gera hlutina öðruvísi og hef bara tekið mitt pláss síðan og aldrei upplifað mig eitthvað á skjön. Þó sumum hafi kannski fundist ég eitthvað skrítin þá fæ ég mun oftar jákvæð viðbrögð, bros og hrós. 18 ára fór ég síðan til Þýskalands sem skiptinemi og kynnist þá flóamörkuðum sem opnaði mér nýja veröld.“

„Beint eftir stúdentinn flyt ég til Þýskalands og held áfram þessu grúski á flóamörkuðum. Það hafði fullt að segja að það var mun ódýrara að kaupa notað en það var líka svo gaman að finna eitthvað einstakt, vera ekki eins og allir aðrir. Á þessum tíma gekk ég í alls konar fatnaði, meira að segja buxum. Ég keypti mér einhver hefðbundin skrifstofuföt þegar ég flutti heim frá Þýskalandi þar sem ég var að byrja í nýrri vinnu en ég endaði með að nota þau frekar lítið og hélt mig sem betur fer frekar við minn stíl. Síðustu fimmtán árin hef ég svo bara gengið í kjólum, meira að segja þegar ég fer í göngutúra.

Ég kaupi meira og minna allt notað, kjóla, yfirhafnir og fylgihluti. Innsta lag kaupi ég reyndar nýtt, nærföt og sokkabuxur og stundum skó. Ég er nægjusöm í grunninn en átti það til að missa mig aðeins, sérstaklega í útlöndum, og kaupa mjög marga kjóla í einu enda kostuðu þeir ekki mikið sérstaklega ef ég fór á kílóamarkaði. Í dag eltist ég ekki eins mikið við magn, frekar við gæði og sögu og reyni að eiga allavega einn kjól úr hverri borg sem ég heimsæki.
Ég vann um tíma sem rekstrarstjóri yfir fataverkefni Rauða Krossins en þar, og í Þýskalandi, jókst auðvitað umhverfisvitundin því magnið af fatnaði sem kom þangað inn var yfirþyrmandi. Einhverjir gámar á dag, einhver tonn1 á ári.
Mér finnst annars frábært hvað fólk er farið að kaupa meira af notuðum fatnaði. Sérstaklega fyrir börn en mér finnst ekki langt síðan fólk gat verið litið hornauga og talið nískt ef keypt var notað á þau.“

Loppa er verslun þar sem einstaklingar geta leigt bása og selt notaðan fatnað eða muni. Verslunin sér um söluna fyrir einstaklinginn gegn ákveðinni söluprósentu.
Second hand verslun selur notaðan fatnað.
Vintage verslun selur gamlan fatnað, yfirleitt frá um 1930/40 til 1980. Margar Vintage búðir sérhæfa sig í ákveðnum tímabilum og stílum.

„Það er munur á second hand búðum og vintage búðum. Ég fer í vintage búðir í borgum erlendis og leita að gömlum kjólum helst frá 1955 – 1975. Ég fer þess vegna lítið í loppur því svoleiðis kjólar fást sjaldan þar.
Það er viss upplifun að versla í svona búðum. Eigendurnir eru oft með mikla ástríðu og þekkingu á flíkunum og hefst oft skemmtilegt samtal við þá. Ég labba ekki bara inn og kaupi, heldur ræði gjarnan við viðkomandi, til dæmis um það frá hvaða tímabili kjóllinn sé, hver sagan sé bakvið flíkina. Ég keypti sem dæmi jakka í vintage verslun í Berlín fyrir rúmu ári. Eigandinn sagði mér að hann hefði tilheyrt mæðgum sem voru þekktar fyrir að vera alltaf eins klæddar. Alltaf í stíl. Mamman var kannski í kjól og stelpan þá í pilsi og jakka í sama lit eða efni. Hugsaðu þér hvað þetta er gaman, sagan, ekki eitthvað fjöldaframleitt. Mér finnst dásamlegt að hugsa um að einhver hafi áður spásserað um í þessum kjól einhvers staðar.“
Hvað er kjóllinn gamall?
Nokkur ráð frá Thelmu sem geta hjálpað við aldursgreiningu kjóla.
- Athugaðu hvort það er miði í kjólnum, ef ekki er hann sennilega sérsaumaður eða heimasaumaður
- Ef eitthvað merki er á miðanum, gúggla merkið eða skrifa fyrirtækinu og senda þeim mynd af kjólnum ásamt fyrirspurn um aldur hans.
- Eru þvottaleiðbeiningar í kjólnum? Þvottaleiðbeiningar í orðum benda til að kjóllinn sé líklega frá því fyrir 1960. Um 1958 koma fyrst fram tákn sem eru vísir að alþjóðlegu þvottatáknunum sem við þekkjum í dag. Þvottatáknin voru orðin alþjóðleg um 1963 og 1975 almennt komið í lög að þau yrðu að vera í fatnaði.
- Hvernig er rennilásinn? Ef hann er úr málmi aukast líkur á að kjóllinn sé gerður fyrir 1960 en þá koma fram rennilásar úr plasti.
- Saumarnir segja líka sína sögu, overlock saumur segir okkur t.d. að kjóllinn er yngri en frá 1965 þegar Overlock saumavélar koma fyrst fram.
- Er hliðarrennilás í kjólnum? Það gæti bent til að kjóllinn sé frá tímabilinu 1930-1960 en þá var oft minni teygja í efnum og nauðsynlegt að hafa hliðarrennilása.

„Ég er búin að þróa minn stíl, en hann er vintage kjóll + litríkar sokkabuxur + hárband + eyrnalokkar. Ég veit hvaða snið og efni henta mér orðið og versla ekki kjóla á netinu. Ég þarf að koma við efnið, máta þá og tengjast þeim. Fyrir mér er þetta upplifun og gersemaleit. Gamlir kjólar eru einstakir, það eru meiri gæði.

Kjólarnir eru verðmætustu hlutirnir sem ég á og það fyrsta sem ég myndi bjarga ef kviknar í. Það er annars nauðsynlegt að eiga saumavél til að hugsa um svona gersemar, ég þarf oft að laga saumsprettur, þrengja eða stytta kjóla og hef einnig ósjaldan stoppað í sokkabuxur. Ég hendi líka engum kjólum, geymi þá alla, og eru þeir orðnir á annað hundrað. Suma kjóla hef ég átt í meira en 20 ár og þeir eru alltaf í tísku í mínum bókum! Með kjólunum fæ ég jafnframt útrás fyrir sköpunarþörf og litagleði, þetta eru mín listaverk. Kjólarnir eru ég.“
„Mikið ertu flott!“ kallar ókunnug kona einmitt glaðlega til Thelmu þar sem við erum á rölti í Hafnarfirði. Kjólaástríðan er augljóslega gefandi á margan hátt og fyrir áhugasama heldur Thelma úti litríkri og fróðlegri instagram og facebook síðu undir nafninu Kjólasafn Thelmu þar sem hún sýnir og segir frá kjólunum sínum, aldursgreinir þá, og annað skemmtilegt þeim tengt. Hún deilir þar líka alls konar skemmtilegum aðferðum við fataval, hvernig má brjóta upp venjur en kannski fyrst og fremst hvernig hún nýtur þess sem hún á.
Viðmælandi: Thelma Jónsdóttir
Texti og ljósmyndir: Salbjörg Rita Jónsdóttir
Myndirnar eru teknar í Hafnarfirði og á Álftanesi
Gersemarnar tilheyra allar Thelmu
1) Um 3000 tonnum af fatnaði er skilað í fataflokkunarverkefni Rauða Krossins á ári skv. https://www.raudikrossinn.is/deildir/hofudborgarsvaedid/kopavogsdeild/frettir/mikid-magn-i-fataverkefni-rauda-krossins